Það veltur á hversu mikið öryggi (psychological safety) ríkir í teymum hversu viljugt fólk er að segja hluti upphátt. Það ósagða getur haft skelfilegar afleiðingar - ýmist sýnilegar eða algjörlega ósýnilegar:
Ég sé mistök - en vil ekki vera sú sem alltaf er að tuða
...mistökin komast upp löngu seinna og það tekur margfaldan tíma/orku/fjármuni að vinda ofan af þeim.
Mér sýnist hún gefa sjúklingnum of stóran skammt af lyfi - en það er ekki minn staður að segja læknum til
...fleiri dauðsföll og alvarleg frávik.
Ég er með frábæra hugmynd sem gæti aukið virðið úr verkefninu - en yfirmaðurinn veit best þannig að ég segi ekkert
...verkefnið skilar því sem vænst var af því ... engu meira.
Ég skildi orð flugumferðastjórans á annan hátt - en flugstjórinn er með miklu meiri reynslu en ég ... hann hlýtur að vita betur
583 manns láta lífið í mannskæðasta flugslysi sögunnar.
Það liggur eitthvað þungt á mér í dag en ég ætla ekki að segja fólki það, því þá vita þau að ég er ekki alltaf á fullum afköstum
... teymisfélagar eyða ómældri orku í að hugsa hvað þeir hafi gert viðkomandi... af hverju hann sé svona fúll út í þau, afköst allra minnka & andrúmsloftið verður þvingað.
Þú sem leiðtogi þekkir örugglega margar svona sögur úr þínu umhverfi og þinni reynslu. En fjöldi svona atvika er margfalt meiri en okkur grunar.
Þetta eru frávikin sem eru aldrei skráð.
Þetta eru glötuðu tækifærin.
Þetta eru mannslífin sem hefði verið hægt að bjarga.
Þetta eru nýjungarnar sem aldrei komust á teikniborðið.
Þetta er samtalið sem hefði getað bjargað orðspori fyrirtækisins.
Þetta eru erfiðu starfsmannamálin sem hefði svo auðveldlega verið hægt að koma í veg fyrir.
Þetta eru öflugu starfsmennirnir sem hætta.
Þetta er árangurinn sem aldrei átti séns.
Ef okkur langar að fyrirtækin/stofnanirnar okkar nái árangri/lifi af/skari fram úr í flóknum óvissu heimi þýðir ekki að vera strúturinn.
Fjárfestum í fólki
Fjárfestum tíma í að tala um erfiðu hlutina
Fjárfestum tíma í að byggja upp okkar eigið öryggi og hugrekki þannig að við getum haft frumkvæði að og mætt inn í þessi samtöl
Fjárfestum tíma í að búa til umhverfi þar sem öryggi og rými er til að tala um fleira en innihald verkefnanna okkar
Því þetta eru fjárfestingarnar sem skila okkur árangri í hröðum flóknum heimi.
#Mjúku-málin-eru-grjótharða-stöffið #Teymisþjálfun #Teymisþróun #Þögnindrepur
Comments